154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:09]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta var svolítið opið. Þetta var mjög opið. Þegar við erum að fást við fjárlögin og ríkisfjármálin þá náttúrlega verður þetta að vera svolítið hlutlægt. Við erum að fást við tölfræði og tölur sem er þá hægt að lesa í einhverju samhengi hlutanna yfir eitthvert tímabil. Auðvitað höfum við verið saman, ég og hv. þingmaður, í fjárlaganefnd, ég var þar í mörg ár áður en ég fór í utanríkismálanefnd og er svo kominn aftur til baka. Hv. þingmaður hefur einmitt verið duglegur að kalla eftir því að það séu búnar til tölur, hlutlægar tölur yfir sem flesta hluti, sem er eðlilegt. Ég vek athygli á því að í þessum fjárlögum er verið að taka inn undir vaxtakostnaðinn einmitt lífeyrisskuldbindingar, framtíðarskuldbindingar, sem hefur ekki verið gert áður þannig að það er verið að stíga svolítið skref í átt að því — (Gripið fram í.) já, já, og þau eru mörg — sem hv. þingmaður hefur mikið verið að ræða á undanförnum árum. Við hljótum bara í okkar störfum hér að vera að reyna að ná utan um þau eins og kerfið er núna, þetta system, regluverkið á bak við það sem við erum að fást við, og reyna að finna út úr því hvernig best er að standa að þessu.

Að mörgu leyti hefur margt jákvætt gerst. Nú erum við að fást við erfiða hluti sem koma í gegnum heimsfaraldurinn og stríð í Úkraínu og þar á undan meira að segja WOW air fyrir heimsfaraldurinn, þetta voru sérstök ár þarna mörg í röð. (Gripið fram í.) Við erum að reyna að ná þessu jafnvægi á nýjan leik og það gengur ótrúlega hratt. Það sem við höfðum kannski áhyggjur af í mars 2020 þegar ég var þá í fjárlaganefnd var einmitt að finna hvernig ætti í rauninni að lenda þessu ástandi, við áttum nú fróðlega fundi þá. En ég held að að mörgu leyti hafi aðgerðin sem var farið í gegnum fjármálaáætlun 2021–2025 — það hefur margt gengið mjög vel eftir sem við ætluðum þá. (Forseti hringir.) Þá bendi ég kannski á að það var reiknað með 1000 milljarða halla á ríkissjóði í þeirri ríkisfjármálaáætlun, fyrir það tímabil, en hann varð mörg hundruð milljörðum lægri miðað við hverju var spáð þar.